154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður hefur talað dálítið um útgjaldavanda þessarar ríkisstjórnar, hversu mikið hún er að eyða og auka útgjöld o.s.frv. En ég er aðeins búinn að vera að skoða tölurnar og þegar ég skoða meðalútgjöld langt aftur, síðustu 30 ár miðað við verga landsframleiðslu, þá eru meðalútgjöld ríkisstjórna um 30,9% af vergri landsframleiðslu. Meðaltekjur á hverju ári, bara samkvæmt ríkisreikningum, eru 30,5%. Sem sagt minni tekjur en útgjöld að meðaltali, sem útskýrir það að við erum samtals í halla, annars værum við samtals í plús eða jöfn. Það er staðan eins og er. Það sem er áhugavert við að skoða tölurnar, langtímameðaltalið, 30,9%, miðað við útgjöld ríkisstjórnarinnar núna samkvæmt þessum fjárlögum, miðað við hvað við búumst við að verg landsframleiðsla verði á næsta ári og hver vænt útgjöld verða, það á náttúrlega eftir að breytast en þetta er miðað við áætlanir, þá er ríkisstjórnin í 30,8%. Kannski fer það upp í 30,9% núna með öllum þessum breytingartillögum. Það þýðir að ríkisstjórnin er í meðalútgjöldum miðað við fyrri ár, en hún er undir 30% í tekjum. Miðað við meðaltalið, söguna, er hún undir tekjum fyrri ára þannig að það er einhvern veginn eins og það líti út fyrir að það sé tekjuvandamál frekar en útgjaldavandamál. Á sama tíma erum við samt með vanfjármagnað t.d. fangelsiskerfi (Forseti hringir.) eins og kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Fangelsismálastofnun. Hvað útskýrir það?